Reykjavík, 2013. — 199 s.
Í þessu riti er fjallað um fjögur svið tungumálsins – hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingarfræði og orðmyndunarfræði. Tvö þau fyrrnefndu tengjast nánum böndum innbyrðis, og sama má segja um tvö þau síðarnefndu sem oft eru nefnd einu nafni orðhlutafræði. En það eru líka margs konar tengsl milli þessara tvennda – ýmis hljóðferli í málinu gegna t.d. margvíslegum hlutverkum bæði í beygingu og orðmyndun.
Að loknum þessum inngangi er fjallað um hljóðfræði í fjórum köflum. Fyrst er gerð grein fyrir hljóðritun og alþjóðlega hljóðritunarkerfinu í 2. kafla, og síðan fjallað um líffærafræðilegar og eðlisfræðilegar forsendur hljóðmyndunar í 3. kafla. Þá er fjallað um einstök íslensk málhljóð og flokka þeirra í 4. kafla, og hljóð í samfelldu tali í 5. kafla. 6. kafli er síðan á mörkum hljóðfræði og hljóðkerfisfræði, en þar er fjallað um dreifingu íslenskra málhljóða og hljóðskipun. 7. kafli fjallar um ýmis grundvallaratriði hljóðkerfisfræðinnar – hljóðanið, fyllidreifingu og hljóðþætti. Í 8. kafla er gerð grein fyrir hljóðkerfislegum grunnmyndum, svo og hljóðavíxlum og forsendum þeirra. Í síðustu köflum hljóðkerfisfræðinnar er svo fjallað um margs kyns hljóðferli í íslensku – mállýskubundin hljóðferli í 9. kafla, og ýmis önnur hljóðferli í 10. kafla. Síðan tekur orðhlutafræðin við og er viðfangsefni næstu sjö kafla. Í 11. kafla er fjallað um íslenskan orðaforða og skiptingu hans, svo og um grundvallarhugtakið myndan og skilgreiningu þess. Í 12. kafla er íslensk orðmyndun tekin fyrir og fjallað um forskeyti, viðskeyti og samsett orð. 13. kafli fjallar svo um orðasafn hugans og uppbyggingu þess, og þar eru málfræðilegar formdeildir kynntar til sögu. Einstökum íslenskum beygingarformdeildum eru svo gerð skil í 14. kafla. Í þeim þremur köflum sem eftir eru er fjallað um beygingu íslenskra orða eftir orðflokkum – nafnorðabeygingu í 15. kafla, beygingu lýsingarorða í 16. kafla og þar með beygingu greinis, fornafna og töluorða, og að lokum sagnbeygingu í 17. kafla. 18. kafli er svo lokaorð.